Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs var stofnað árið 1969 og er deild í Ferðafélagi Íslands. Félagið skipuleggur á hverju ári gönguferðir á mismunandi erfiðleikastigi og birtist áætlun yfir þær í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands og á heimasíðunni www.ferdaf.is. Eins stendur ferðafélagið fyrir gönguferðum annan hvern sunnudag allan ársins hring.
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á og rekur sex gönguskála. Þrír þeirra eru á Víknaslóðum við Borgarfjörð eystri; Í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Tveir eru við gönguleiðina á Lónsöræfum; Geldingafell og Egilssel við Kollumúlavatn og einnig á Ferðafélag Fljótsdalshéraðs ásamt Ferðafélagi Húsavíkur, Sigurðarskála.