Ferðafélag Fjarðamanna
Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum, sem er deild í Ferðafélagi Íslands, var stofnað 1996.
Ferðafélagið hefur beitt sér fyrir lengri og skemmri gönguferðum og útivist frá upphafi, samkvæmt útgefinni ferðadagskrá. Félagið býður upp á ferðir um eyðibyggðir Austurlands, sérstaklega á Gerpissvæðinu austast á Austurlandi og einnig um fjöll, nágrenni byggða og söguferðir í byggðum. Félagið stendur að gönguvikunni „Á fætur í Fjarðabyggð“ ásamt Ferðaþjónustunni Mjóeyri, Fjarðabyggð og fleiri aðilum. Gönguvikan, síðasta vika júnímánaðar, er stórviðburður. „Fjöllin fimm í Fjarðabyggð“ er blómstrandi verkefni sem félagið stofnaði til 2004, heldur utan um og verðlaunar veglega fyrir ár hvert. Félagið á gistiskála að Karlsstöðum í Vöðlavík með gistiaðstöðu fyrir 33, góðum búnaði og sturtu. Félagið hefur stikað og endamerkt fjölda gönguleiða og gefið út göngukort „Fjarðaslóðir“ austast á Austurlandi, þar sem þeim er lýst. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu félagsins simnet.is/ffau
„Fjöllin fimm í Fjarðabyggð“ eru: Goðaborg í Norðfirði 1132 m, Svartafjall milli Norðfjarðar og Eskifjarðar 1021 m, Hólmatindur milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar 985 m, Hádegisfjall sunnan Reyðarfjarðar 809 m og Kistufell sunnan Fagradals 1239 m .
Nálægt 30 manns náðu að ganga á öll fjöllin fimm á árinu 2010. Þeir fá allir viðtal við sig á heimasíðu og fallega handgerða leirvörðu sérmerkta þeim og með dagsetningum afrekanna.
Í „Á fætur í Fjarðabyggð“: 2010, tóku 780 manns í 17 ferðum þátt í göngum, gengið var á öll „Fjöllin fimm“ í vikunni. Þar af náðu18 manns að sigra tindana alla í sjálfri gönguvikunni. Auk þess voru dagskrár og kvöldvökur úti og inni og tóku alls um 2000 manns þátt í þeim.
Hér er hægt að skoða göngukortið nánar !