Farfuglaheimilið Sæberg
Farfuglaheimilið Sæberg er við austanverðan Hrútafjörð, rétt við Reykjaskóla, um það bil miðja vegu milli Akureyrar og Reykjavíkur. Farfuglaheimilið er í reisulegu húsi sem fyrrum var bóndabær og stendur á nesi sem gengur út í fjörðinn og nefnist Stekkjarnes. Bæjarstæðið er sérstakt og er þaðan víðsýnt um sveitina. Auk gistingar í húsinu er boðið upp á gistingu í tveimur smáhýsum fyrir þá sem kjósa það heldur. Heitur pottur og tjaldstæði með eldunaraðstöðu og góðri snyrtiaðstöðu er á staðnum. Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu, um fjöruna og upp á Hrútafjarðarháls, auk þess sem hægt er að ganga þurrum fótum út á miðjan fjörð eftir Reykjarifi á stórstreymisfjöru. Fjölskrúðugt fuglalíf. Sundlaug er í Reykjaskóla og mjög áhugavert byggðasafn, þar sem m.a. má finna hákarlaskipið Ófeig. Þeir gestir sem koma með áætlunarbíl fara úr við Reykjaskóla. Athugið að næsta verslun er í 18 km fjarlægð.