Emstrur - Ferðafélag Íslands
Í Botnum á Emstrum á gönguleiðinni um Laugaveginn eru þrjú sæluhús og alls er þar gistirými fyrir 60 manns.
Sæluhúsin þrjú eru öll eins í laginu. Gengið er inn í forstofu og þaðan inn í svefnrýmið sem hýsir líka lítið, opið eldhús, langborð og stóla. Í öllum skálunum er eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu rennandi vatni. Að auki eru stór kolagrill við hvert hús.
Húsin, sem hvert um sig hýsir 20 manns í 10 tvíbreiðum kojum, eru öll tengd saman og við salernishúsið með trépalli. Góð aðstaða er til að sitja úti á trépöllunum og saman myndar þessi þyrping skemmtilega heild húsa. Á bak við húsin og í dalverpi fyrir neðan þau er lítið tjaldstæði. Salernishúsið er sameiginlegt fyrir skála- og tjaldgesti og þar er hægt að fara í sturtu gegn gjaldi. Vetrarkamar er fyrir neðan salernishúsið.
Flestir gestir skálans ganga Laugaveginn, en auk þess er á svæðinu skemmtileg gönguleið að Markarfljótsgljúfri.