Álftavatn - Ferðafélag Íslands
Við Álftavatn á gönguleiðinni um Laugaveginn eru tvö sæluhús og alls eru þar gistirými fyrir 72 manns
Stærra húsið er á tveimur hæðum og hýsir 38. Niðri er forstofa, opið eldhús og matsalur og fjögur herbergi. Uppi eru tveir svefnsalir með rúmbálkum. Minna húsið skiptist í eldhús og svefnsal með borðum og stólum. Þar geta 36 sofið. Í báðum skálum er góð eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu rennandi vatni. Kolagrill eru úti á palli.
Gistiskálarnir tveir eru samtengdir með trépalli sem liggur líka að salernishúsinu. Salernishúsið er sameiginlegt fyrir allt svæðið, þ.e. fyrir gistiskálana og tjaldsvæðið og þar eru sturtur sem hægt er að kaupa aðgang að hjá skálavörðum. Lítið skálavarðahús er líka á svæðinu. Tjaldsvæðið er stórt. Vetrarkamar er skammt frá salernishúsinu.
Flestir gestir skálans ganga Laugaveginn, en auk þess eru á svæðinu skemmtilegar gönguleiðir á Brattháls og að Torfahlaupi.