Fara í efni

Þingvallavatn

Selfoss

Stærsta stöðuvatn á Íslandi, talið um 12000 ára gamalt, 83,7 km² að meðtöldum eyjunum, sem eru 0,5 km² að stærð. Þær eru þrjár og heita Sandey, Nesjaey og Heiðarbæjarhólmi. Þar sem vatnið er notað sem miðlunarlón fyrir raforkustöðvar er vatnsborðshæð örlítið mismunandi, en um 101 m y.s. að meðaltali. Mesta dýpi er um 114 m. Meðaldýpt er um 34 m.

Þingvallavatn hefur myndast við landsig og hraunstíflu. Það er á Atlantshafshryggnum, einmitt þar sem gliðnun hans fer fram. Út í vatnið liggja sprungur og gjár. Víða neðan vatns eru hrikalegir hamraveggir, einkum utan Hestvíkur í Hnúkadjúpi norðvestur af Nesjaey og í Sandeyjardjúpi, norð-norðvestur af Sandey. Þar er vatnið dýpst.

Sog fellur úr Þingvallavatni. Á yfirborði rennur í vatnið rösklega 1/10 hluti af vatnsmagninu í Soginu, en það er Öxará að norðan og nokkrar smáár og lækir sunnan frá Grafningsfjöllunum. En innrennslið er að öðrum hluta neðanjarðar. Undan Þingvallahrauni streymir mikið lindavatn (kaldavermsl) á Vellankötlusvæðinu og úr gjánum á Þingvöllum. Einnig kemur mikið vatn neðanjarðar af Hengilssvæðinu, einkum undir Nesjahrauni. Nú þykir fullsannað að vatnasvið Þingvallavatns nái allt til Langjökuls.

Í venjulegu árferði leggur Þingvallavatn þegar líða tekur á vetur og er jafnan ísilagt í febrúar og mars. Áður fyrr var ísinn mikil samgöngubót og óspart notaður til skautaferða og flutninga á vörum úr kaupstað eða milli bæja. Nærri Nesjaey, að vestanverðu, er svæði sem nefnt er Nesjaeyjaropna. Þar leggur vatnið síðast og ísa leysir fyrst. Annars leynast víða vakir á ísnum, einkum þar sem kaldavermsl eru. Ættu ókunnugir sem þar eru á ferð að gæta fyllstu varúðar.

Mikil veiði er í Þingvallavatni. Gefur það af sér árlega allt að 10 kg af fiski á hektara. Þar þekkjast einar 8 fisktegundir og afbrigði þeirra.

Mikill gróður er í vatninu og hafa rannsóknir sýnt að 1/3 hluti botnsins er þakinn gróðri.

Þingvallavatn er þekkt fyrir snögg veðrabrigði. Á örskömmum tíma getur spegilsléttur vatnsflöturinn breyst í úfið, ólgandi haf með hvítfyssandi, kröppum öldum. Þá er smábátum hætt.

Saga Þingvallavatns nær aftur á ísöld og hefur vatnið mátt þola miklar sviptingar. Í lok ísaldar var það jökullón sem jökull, er lá að Dráttarhlíð og Grafningshálsum, stíflaði. Jöklarnir hörfuðu og vatnsborðið stóð fáeinum metrum neðar en nú. Hægt en stöðugt seig landið í sigdalnum norður frá Hengli og vatnið dýpkaði. Jökulár runnu líklega frá Langjökli um dal suður til Þingvallavatns og gerðu vatnið jökulgruggugt. Stórgos varð í dalnum norðan við vatnið fyrir tæplega 10.000 árum. Skjaldbreiður myndaðist og sendi hraun suður í vatnið er þrengdu að því. Annað stórgos varð tiltölulega skömmu síðar, eða fyrir um 9.000 árum norðaustur af Hrafnabjörgum. Hraun frá þessu gosi runnu yfir Skjaldbreiðarhraunið neðan vatnsins og út í vatnið svo að það minnkaði til muna. Þetta hraun rann einnig suður með austurjaðri vatnsins og stíflaði það við Sog. Við þetta hækkaði í vatninu um 12-13 m en Sogið gróf sig síðan niður og lækkaði vatnið á ný um 7-8 m. Síðan hefur vatnið sífellt verið að stækka til norðurs í sigdældinni austur frá Þingvöllum. Fyrir 2000-3000 árum gaus í vatninu og þá myndaðist Sandey, sem er stærsta eyja í stöðuvatni hér á landi.

Árið 1959 var útfall Sogsins stíflað. Frá þeim tíma hefur rennsli vatns og vatnshæð verið stjórnað af mönnum.

Landnámabók nefnir vatnið Ölfusvatn.

Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.