Fara í efni

Eldgjá

Kirkjubæjarklaustur

Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld. 

Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána.

Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.

Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.

Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.