Straumnes
Straumnesfjall er fjall upp af Aðalvík í Sléttuhreppi. Gamall vegur liggur upp á fjallið frá Látrum í Aðalvík. Uppi á fjallinu byggði ameríski herinn radarstöð árin 1953-1956 og var hún rekin í um áratug. Núna má einungis sjá leifar af stöðinni og húsin eru mikið farin að láta á sjá. Radarstöðin á Bolafjalli, ofan Bolungarvíkur, var byggð til þess að taka við af þessari stöð og er hún enn í notkun en er rekin af Landhelgisgæslu Íslands eftir að herinn fór af landi brott. Ameríski herinn hafði víðtæk áhrif á Hornströndum og byggði herstöðina, flugvöll og stóð í stórræðum í vegalagninu. Fjöldi fólks hafði vinnu af því að þjónusta herinn og segja má að ef stöðin hefði verið lengur í rekstri þá hefði íbúaþróun á Hornströndum kannski orðið önnur.