Fara í efni

Skarð á Skarðsströnd í Dölum

Búðardalur

 Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd í Dölum. Hafa margar söguhetjur Íslendingasagnanna átt þar heima og afkomendur Skarðverja búið þar lengi, jafnvel alveg frá landnámi. Við Skarð er kennd Skarðsbók, sem á er rituð Jónsbók, lögbók Íslendinga frá árinu 1281. 

Einn af stórbændum sem búið hafa á Skarði var Björn hirðstjóri Þorleifsson og kona hans Ólöf ríka Loftsdóttir. "Eigi skal
gráta Björn bónda heldur safna liði" er haft eftir Ólöfu eftir að Englendingar höfðu vegið mann hennar árið 1467.  

Lét hún drepa marga Englendinga, en aðra tók hún til fanga og hneppti í þrælkunarvinnu. Voru þeir meðal annars látnir gera steinstétt mikla úr hellum að Skarðskirkju og sjást enn merki hennar. Þau hjón voru auðugust hjón á Íslandi á sinni tíð og margir Íslendingar taldir út frá þeim komnir. 

Skarðskirkja var lengi vel höfuðkirkjan í Skarðsþingum. Núverandi kirkja var endurbyggð 1914-1916. Í Skarðskirkju er margt um stórmerka gripi. Sem dæmi má nefna alabasturmyndir frá 15 öld og prédikunarstólinn sem er frá 17 öld.