Fara í efni

Orbis et Globus

Grímsey

Listaverkið Hringur og kúla / Orbis et Globus / Circle and Sphere er nýtt kennileiti fyrir heimsskautsbauginn eftir Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda sem vígt var árið 2017 eða 300 árum frá því að baugurinn kom fyrst inn á eyjuna.

Kúlan er 3 metrar í þvermál og er hugmynd listamannanna sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsíns þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.

Tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013. 

Listaverkið hefur vakið mikla athygli, bæði á Íslandi og erlendis. Hér að neðanverðu má finna hlekki á umfjallanir um það frá íslenskum og erlendum fjölmiðlum.

Göngutúr frá höfninni að listaverkinu er um 3.7 km og frá flugvellinum um 2.5 km. Reikna má með um 3 klst. í gönguna (fram og tilbaka) og mælt er með því að dvelja yfir nótt því hefðbundin stopp hjá ferjunni og áætlunarfluginu eru í knappasta lagi til að njóta og sjá það helsta í eyjunni. Meðal annars er mælt með því að rölta um þorpið, koma við hjá Fiskeminnismerkinu og lesa söguskiltin, líta við á veitingastaðnum Kríunni og/eða minnsta kaffihúsi Íslands á gallerí Gullsól. Einnig er mælt með að ganga suður að Vitanum og rölta meðfram strandlengjunni á suðvestur hluta eyjarinnar og skoða fallegt stuðlaberg auk minja um gamlar sjóbúðir. Á þeirri leið má einnig finna "Aldarsteinana" sem sýna staðsetningu heimskautsbaugsins árið 1717, 1817 og 1917. Á meðan á aðal fuglatímanum stendur, en hann er frá lokum apríl til byrjun ágúst, er gott að reikna með góðum tíma til fuglaskoðunar því það er sannarlega ríkulegt og heillandi í Grímsey.