Fara í efni

Lagarfljótsormurinn

Egilsstaðir

Lagarfljótið er eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið nær úr Fljótsbotninum út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Er það um 53 km2 að stærð og meðaldýpi er 51 m, en mesta dýpi 112 m. Í þessum hluta Fljótsins eru heimkynni Lagarfljótsormsins.

Fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum er frá 1345. Þá sáust ýmist stórar eyjar eða upp skaut lykkjum með sundum á milli og virtist mörg hundruð faðma langt. Vissu menn ekki hvaða undur þetta voru því hvorki sást haus né sporður. Árið 1589 greinir frá því að ormurinn hafi skotið kryppunni upp úr vatninu. Var kryppan svo mikil að hraðskeitt skip með þöndum seglum gat siglt undir hana. Þegar skrímsli þetta svo slengdi sér aftur niður í Fljótið varð af svo mikill gnýr og landskjálfti að allt umhverfið nötraði. Næstu aldir voru umbrot ormsins tíð. Þótti það jafnan vita á illt ef itl hans sást. Á 20. öld sást til ormsins í ýmsum myndum vítt og breitt meðfram Fljótinu og lýsingar sjónarvotta vitnuðu um ávalar kryppur sem risu upp úr vatnsyfirborðinu og færðust óháð straumi og vindum. Einnig sást til ormsins á dýptarmæli þar sem hann kúrði langt undir vatnsyfirborðinu. Í febrúar 2012 náði bóndinn á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal myndum af torkennilegu fyrirbæri sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal sem fellur í Lagarfljót. Myndband þetta dreifðist hratt um heimsbyggðina á öldum internetsins og milljónir manna skoðuðu það.

Áningarstaðir með upplýsingaskiltum um orminn eru á nokkrum stöðum við Lagarfljót. Kjörið er að staldra við á þeim og vita hvort ormurinn lætur ekki á sér kræla.