Fara í efni

Kambur

Selfoss

Vestast í Hróarsholtshverfinu er bærinn Kambur. Hinn 9. febrúar 1827 gerðist þar sá atburður sem frægur hefur orðið í Íslandssögunni, er fjórir grímuklæddir menn brutust inn, lögðu hendur á heimilisfólkið og rændu töluverðu fé. Þeir bundu bóndann Hjört Jónsson og húsfólk hans og brutu upp hirslur í leit að peningum. Þeir rændu um 1000 ríkisdölum. Það var Þuríður formaður sem átti þátt í að upplýsa málið. Þuríður taldi sig þekkja handbragðið á skó sem fundist hafði, og bárust við það böndin að manni þeirrar konu sem skóinn hafði gert, Jóni Geirmundssyni á Stéttum í Hraungerðishreppi. Þuríður veitti því einnig eftirtekt að för á járnteini sem fundist hafði, pössuðu við steðja í eigu Jóns. Af vettlingi sem fannst í túninu á Kambi, bárust böndin að Jóni Kolbeinssyni, á Brú í Stokkseyrarhreppi, og lá Hafliði bróðir hans einnig undir grun. Þegar farið var að yfirheyra þessa menn játuðu þeir loks á sig ránið og bentu á forsprakkann, sem reyndist vera Sigurður Gottsvinsson á Leiðólfsstöðum. Frekari rannsókn leiddi í ljós fleiri aðila sem voru samsekir. Um ári síðar kvað sýslumaður Árnesinga upp dóm í málinu. Var Sigurður dæmdur til hýðingar, brennimerkingar og ævilangs þrældóms í Kaupmannahöfn, Jón Geirmundsson til hýðingar og þrældóms ævilangt, Jón Kolbeinsson til 12 ára þrældóms og Hafliði til 8 ára. Sigurður var drepinn í fangavistinni, en hinir fengu sakauppgjöf frá kóngi.