Fara í efni

Eyrarbakkakirkja

Eyrarbakki

Séra Jón Björnsson var aðalforgöngumaðurinn fyrir nýrri kirkju á Eyrarbakka. Framan af var kirkjusókn Eyrbekkinga á Stokkseyri en vegna mikilla fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var að lokum tekin sú ákvörðun að skipta þyrfti upp sókninni. Jóhann Friðrik Jónsson, forsmiður og helsti trésmiður á Eyrarbakka á áratugnum 1880 - 90 sá um hönnun og vann að byggingu kirkjunnar. Jóhann Friðrik lést áður en kirkjan var full byggð.  

Eyrarbakkakirkja var reist á Eyrarbakka árið 1890 og vígð sama ár. Fyrsta orgelið í hina nýju kirkju gaf Jakob A. Lefolii, kaupmaður á Eyrarbakka sókninni. Hvað Séra Jón varðar þá höguðu örlögin því svo, að hann var fyrsti maðurinn sem kvaddur var frá Eyrarbakkakirkju, en það var árið 1892. Fjögur ár liðu frá vígslu Eyrarbakkakirkju uns hún öðlaðist full réttindi sem sóknar- og graftarkirkja, en nýr kirkjugarður var ekki vígður og tekinn í notkun á Eyrarbakka fyrr en árið 1894. Kirkjugarðurinn er austar í þorpinu. 

Sögufrægasti gripur kirkjunnar er án efa sjálf altaristaflan sem prýðir mynd af Jesú á tali við Samversku konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4, 13-14). Undir töflunni er ritað: „Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta." Tilurð altaristöflunar á sér sérstaka sögu, en Séra Jón Björnsson sigldi m.a. í erindum kirkjubyggingarinnar til Kaupmannahafnar til þess að útvega kirkjuviðinn. Hlaut hann þar svo góðar viðtökur þegar hann gekk á fund konungs og drottningar, að Louise, drottning Kristjáns konungs IX., gaf kirkjunni altaristöflu, sem hún hafði sjálf málað og er nafn drottningar á töflunni og ártalið 1891.

Af öðrum merkum kirkjugripum má nefna kertastjaka úr Kaldaðarneskirkju, en kirkja þar var lögð niður árið 1902. Á þeim er ritað ártalið 1780 og stafirnir E.S.S. Stjakarnir eru íslensk smíð og að öllu handunnir. Einnig er úr Kaldaðarneskirkju ljósakróna í kór kirkjunnar. Árið 1918 var sett upp stundaklukka í turn kirkjunnar sem slær á heilum og hálfum tíma. Hún var gjöf frá danska kaupmanninum Jakob A. Lefolii. 

Skírnarfonturinn er gjöf safnaðarins á 60 ára afmæli kirkjunnar árið 1950. Hann gerði listamaðurinn Ríkharður Jónsson. Skírnarskálin sem Leifur Kaldal gullsmiður gerði var gefin kirkjunni til minningar um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður á 100 ára fæðingarafmæli hennar. 

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni frá því hún var byggð árið 1890. Skrúðhús var byggt við norðurhlið kórs 1962 og á árunum 1977 til 1979 var turninn breikkaður, gluggum og umbúnaði þeirra breytt, kirkjan klædd nýrri vatnsklæðningu að utan og panelborðum innan og smíðaðir í hana nýir bekkir. Nýtt íslenskt 11 radda pípuorgel eftir Björgvin Tómasson var tekið í notkun í kirkjunni á jólum 1995. 

Kirkjan tekur um 230 - 240 manns í sæti. 

Eyrarbakkakirkja var friðuð 1. janúar 1990