Fara í efni

Veiðivötn

Hella

Vatnaklasi á Landmannaafrétti, norðan Tungnaár. Veiðivötn liggja í lægð með norðaustur-suðvesturstefnu milli Snjóöldufjallgarðs að suðaustan og Vatnaöldugígaraðarinnar að norðvestan. Vatnasvæðið er um 5 km breitt og 20 km langt frá norðaustri til suðvesturs. Svæðið er mjög eldbrunnið, þakið gjósku, gígum eða hrauni. Mikið eldgos um 1480 myndaði gígaröð um Veiðivötn og suður að Landmannalaugum. Mörg vatnanna eru gígvötn í gígum sem ná niður í jarðvatnsborðið. Fullyrða má að í þessu gosi hafi Veiðivötn fengið sína núverandi mynd og e.t.v. að um leið hafi hinn forni Stórisjór horfið. Stærstu gígarnir eru myndaðir úr gjósku, þ.e. við gos þar sem vatn hefur haft áhrif á kvikuna. Smærri gígarnir eru úr hraunkleprum og sumir þeirra eru fallegar eldborgir. Þeir eru oft í botni stóru gjóskugíganna og smáhraunbleðill umhverfis. 

Segja má að Veiðivötn liggi í tveimur röðum. Helstu vötnin í austari röðinni eru Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn (13 m djúpt) og Litlisjór. Í vestari röðinni liggja vötnin í gígaröðinni frá 1480. Þau eru fleiri og yfirleitt smærri. Helst þeirra eru Nýjavatn, Breiðavatn, Eskivatn sem er dýpsta vatnið (36 m), Langavatn, Skálavatn, Tjaldvatn og Litla- og Stóra-Fossvatn (18 og 15 m djúp). Fossvatnakvísl fellur úr Litla-Fossvatni. Hún fellur í Vatnakvísl sem er stór lindá er rennur suðvestur með Vatnaöldum til Tungnaár. Mörg vötnin hafa neðanjarðarafrennsli enda er berggrunnurinn mjög sprunginn og lekur. Nyrst og austast eru svo Hraunvötn sem einnig eru gígvötn. Alls eru vötn og pollar á þessu svæði um 50 talsins. 

Gróðurvinjar eru við sum vötnin, til dæmis við Litla- og Stóra-Fossvatn, en stærstu gróðurlendin eru þó Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og Breiðaver við Breiðavatn. Gróðurlendi við Veiðivötn er sérlega viðkvæmt og verður að gæta ýtrustu varkárni í allri umgengni þar. 

Eins og nafnið bendir til er mikil veiði í Veiðivötnum. Svo var einnig frá fornu fari og nefndust vötnin fyrrum Fiskivötn. Áður veiddist eingöngu urriði en eftir að bleikju var sleppt í vötn annars staðar á vatnasviði Tungnaár hefur hennar orðið vart þar. Veiðivötn teljast til Landmannaafréttar. Nú á dögum er veiðiréttur í höndum Veiðifélagsins á afréttinum og eru almenningi seld veiðileyfi (stöng) yfir sumartímann en handhafar veiðiréttarins stunda þar netaveiðar á haustin. Árið 1880 var gerð tilraun til búskapar við Veiðivötn er Arnbjörn Guðbrandsson af Landi flutti þangað með konu sinni og gerði sér þar bústað en búskapurinn varð skammvinnur (sjá Tjaldvatn). 

Fyrrum fóru fáir til Veiðivatna aðrir en “Vatnakarlar” en nú eru þau fjölsótt af ferðamönnum á sumrin. Veiðifélagið á allmörg hús við Tjaldvatn og nágrenni. Gamall veiðimannakofi er þar. Hann er nú friðlýstur. 

Fyrstir til að rannsaka Veiðivatnasvæðið og skrifa um það voru Sveinn Pálsson 1793 og Þorvaldur Thoroddsen 1889. Nýlegar rannsóknir sýna meðal annars að þar gaus síðast um 1480. Mikið gjóskulag myndaðist í gosinu og lagði mökkinn aðallega til norðurs og norðausturs. Eru sandauðnir Tungnaáröræfa aðallega klæddar gjósku úr Veiðivatnagosinu, en einnig Vatnaöldugosinu. Hringsjá er á Miðmorgunsöldu norðaustur frá Tjaldvatni. 

Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.