Fara í efni

Trjásafnið í Hallormsstaðaskógi

Egilsstaðir

Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum. Trjásafnið er einstakt á landsvísu. Hefjið gönguna um trjásafnið frá bílastæðinu við þjóðveginn, þar sem einnig er salernishús, og fylgið göngustígnum. Gott er að gefa sér góðan tíma, 2 til 3 klukkustundir til að skoða og njóta útiverunnar. Tilvalið er að ganga niður að Fljótinu, snæða nestið sitt og hlusta á fuglasönginn.

Skógræktarstarf á Hallormsstað hófst árið 1903 með því að girt var 12 ha svæði sem nefnist Mörk. Útbúinn var græðireitur á um hálfum hektara sem var upphaf gróðrarstöðvarinnar. Árið 1905 voru gróðursett um 50 blágrenitré efst í Mörkinni. Af þeim standa enn fimm tré og eru þau elstu grenitrén í Hallormsstaðaskógi, skammt fyrir neðan bílastæðið við trjásafnið. Í áranna rás hafa einstök tré og þyrpingar af ýmsum trjátegundum og kvæmum verið gróðursett í Mörkinni og þannig varð trjásafnið til.