Stampar
Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir.
Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi. Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.
Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4,6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá fleiri stæðilega gíga s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó lágir klepragígar og lítt áberandi.
Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.
Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi. Leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er meðfram eru fjölmargir og viðkvæmir.
Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.
Staðsetning: Vegur 425 um 2,5 km til norðurs frá Rauðhólum er stutt ganga.