Fara í efni

Ranaskógur

Egilsstaðir

Ranaskógur er einn fegursti birkiskógur landsins að margra mati með óvenju sléttum skógarbotni. Hann vex ávestari gljúfurbarmi Gilsár á gömlum hreppa- og sýslumörkum fyrir botni Lagarfljóts þar sem Hrafnkelsstaðaháls endar í svonefndum Rana. Í skóginum er víða að finna hvítstofna, beinvaxin birkitré og skógarbotn þakinn blágresi og hrútaberjalyngi. Þá er töluvert af háum reyniviði innan um birkið og hvergi á landinu jafnmörg stór reyniviðartré á jafnlitlu svæði. 

Mitt í skóginum við svonefndan Kiðuhól er lítill reitur með barrtrjám sem Metúsalem J. Kerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, gróðursetti á árunum 1955 - 1961 til minningar um Pál bróður sinn. Af þeim 23 trjátegundum sem Metúsalem gróðursetti lifir 21 og eru hæstu trén að nálgast 20 metrana.

Ranaskógur hefur haldist allt frá landnámi og er hans getið í heimildum frá 15. öld. Skógurinn á þessum slóðum kemur við sögu í Hrafnkels sögu Freysgoða en þar segir frá því að Hrafnkell hafi fellt mörkina á Lokhillu þegar hann flutti í Fljótsdal og byggt þar sem síðar heita Hrafnkelsstaðir. Í kjölfar deilna um skógarítök milli bænda á Hrafnkelsstöðum og Víðivöllum á 19. öld var neðri hluti skógarins að mestu felldur en hann teygði sig þá suður undir Kirkjuhamar. Af þeim hluta skógarins standa nú aðeins örfá birkitré á svonefndum Skógarbala. Fram undir miðja 20. öld var skógurinn nytjaður á hefðbundinn hátt til eldiviðar en 1951 keypti Eikríkur M. Kjerúlf skóginn og lagði hann undir nýbýlið Vallholt. 

Ranaskógur er á náttúruminjaskrá ásamt Gilsárgljúfri og Gilsáreyri.