Fara í efni

Öndverðarnes á Snæfellsnesi

Snæfellsbær

Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsness. Þar var, á árum áður, mikil útgerð og margar þurrabúðir en jörðin hefur nú verið í eyði frá 1945. Á Öndverðarnesi má sjá nokkrar rústir auk þess sem þar er rekinn viti.

Af hlöðnum minjum og ummerkjum sést að á staðnum hefur verið mikið mannlíf áður fyrr. Þar má finna haglega hlaðinn og að nokkru yfirbyggðan brunn sem hægt er að ganga niður í eftir nokkrum þrepum.  

Brunnurinn, sem nefndur er Fálki, var áður eina vatnsból Öndverðarness og er hann ævaforn og friðaður. Sagan segir að í brunninum væri að finna þrjár ólíkar lindir, eina með fersku vatni, aðra með ölkelduvatni og þá þriðju með keim af salti.  

Klettarnir við Öndverðarnes eru víða snarbrattir og freistandi er að kíkja fram af þeim og sjá sandborinn botninn speglast í grænum og bláum sjó.