Fara í efni

Möðrudalur

Egilsstaðir

Möðrudalur er hæsta byggða ból á Íslandi, 469 metra yfir sjávarmáli. Bæinn er að finna á hásléttunni norðan Vatnajökuls. Möðrudalur var landnámsjörð og kirkjustaður allt frá fyrstu dögum kristni. Í dag er blandaður búskapur stundaður í Möðrudal og afurðir búsins nýttar í ferðaþjónustu staðarins. Í Möðrudal er lítil snotur kirkja sem reist var af ábúandanum Jóni Stefánssyni í minningu konu sinnar. Sonur hans Stefán Jónson, Stórval, gerði seinna garðinn frægan með myndum sínum af Herðubreið. Listin blundar enn í afkomendum Jóns bónda og myndir Írisar Lindar prýða betri herbergi Fjalladýrðar.

Nokkrar gönguleiðir eru í boði á svæðinu og hægt að nálgast kort í upplýsingamiðstöð. Þar er einnig hægt að sjá kvikmynd sem sýnir svipmyndir frá gosinu í Holuhrauni 2014. Úr Möðrudal er stutt í margar óviðjafnanlegar náttúruperlur eins og Herðubreiðarlindir, Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, Jökuldalsheiði Stuðlagil og Stórurð.

Tjaldsvæði opin frá júní fram í miðjan september.