Fara í efni

Ljótipollur

Sprengigígur á Landmannaafrétti norðaustur frá Frostastaðavatni. Er gígurinn á eldsprungu þeirri sem mótaði Veiðivötn og hefur orðið til á sögulegum tíma svo sem sprungan öll. Allmikil hæð hefur hlaðist upp kringum gígskálina sem að innan er skreytt rauðum, grænum og dökkum litum en kalt, grænleitt vatn er í botni hennar. Það er 0,43 km² og dýpst 14 m. Greiðfær bílaslóð liggur að Ljótapolli og upp á gígbarminn. Í vatninu er nokkur veiði enda þótt það hafi ætíð verið að- og afrennslislaust.

Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.