Fara í efni

Lakagígar og Laki

Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju.

Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.

Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.

Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi.

Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971.

Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra.

Laki
Kollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins.