Fara í efni

Kerlingarfjöll

Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau.

Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.).
Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar.

Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum.

Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum.
Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.