Hungurfit á Rangárvallaafrétti
Í Hungurfiti hefur verið skálaaðstaða frá árinu 1963 þegar þar var byggður fjallskáli sem var veruleg bót fyrir fjallmenn sem áður höfðu gist í tjöldum. Það hús tekur um 20 manns í gistingu. Árið 2013 var nýtt skálahús tekið í notkun á Hungurfitjum og það hús tekur 50 manns og er einn af nútímalegustu fjallaskálum á Íslandi, með rennandi vatni, vatnssalerni og rafmagni.
Á Hungurfitjum er einstök náttúrufegurð og hentar svæðið jafnt fyrir göngufólk, jeppafólk og hestamenn, en þaðan eru góðar reiðleiðir hvort sem er inn Rangárbotna, áfram inn á Sultarfit, inn með Faxa og yfir í Hvanngil eða niður á Fljótshlíðarafrétt. Þá er góð dagleið á hrossum frá Hungurfit niður að Fossi á Rangárvöllum. Upptök Hvítmögu eru á Hungurfitjum og er hvorttveggja í senn afar fallegt að ríða niður með Hvítmögu eða fara þar gangandi.
Ofan við fjallaskálana eru Skyggnishlíðar og liggja þar inn að fjallinu Skyggni. Vinsælt er að ganga þar upp og inn Skyggnishlíðar, en þaðan er einstakt útsýni á góðum degi. Þá er ekki síður fallegt að ganga eða ríða inn á Sultarfit, inn í Gimbragil og Hrútagil eða inn í Jökulskarð.