Hellisskógur
Selfoss
Hellisskógur er skógræktarsvæði rétt utan við Selfoss. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga.
Stóri-Hellir í Hellisskógi myndaðist við lok jökulskeiðs á ísöld þegar brim svarf klettinn. Ummerki um hærra sjávarborð og sjávarrof sést á fjölmörgum stöðum í hellinum sem myndaðist í 0,7-3,1 milljón ára gömlu basalti. Innst í hellinum var áður geymt hey en fjárhús var staðsett við hellismunnann að framanverðu. Telja sumir að reimt sé í hellinum, af draug með bláan trefil.