Fara í efni

Héðinsfjörður

Siglufjörður

Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga, á milli Hestfjalls að vestan og Hvanndalabyrðu að austan. Fyrir botni fjarðarins er ágætt veiðivatn, Héðinsfjarðarvatn, og er útrennsli úr því um Héðinsfjarðarós út í fjörðinn. Næsta byggð til vesturs er á Siglufirði og til austurs á Ólafsfirði.
 
Inn af fjarðarbotninum er fagur dalur, 5-6 kílómetra langur. Stórt silungsvatn, 1,7 ferkílómetrar að stærð, prýðir dalinn, 3 metra yfir sjávarmáli. Það er vatnableikja og mikil sjóbleikja í vatninu, 1-5 pund. Hún gengur í það síðla sumars.

Mikið dýralíf er við vatnið og fuglar spakir. Sögur eru til af rebba, sem hefur heimsótt veiðimenn alls óhræddur og sótt sér fisk fyrir lítið. Þetta vatn er ekki mikið stundað, en á þó sína áhangendur, sem sækjast eftir friði og góðri veiði. Veiðihús er við norðurenda vatnsins.

Næga afþreyingu er að hafa við Héðinsfjörð og á Tröllaskaga hvort sem það er að vetri til eða sumri til; skíði, snjósleðaferðir, sjóferðir, golf, fótbolti, gönguferðir, hestaferðir, veiði, söfn og margt fleira.