Fara í efni

Hafnarfjall í Borgarfirði

Akranes

Hafnarfjall í Borgarfirði er áberandi í landslaginu og tilheyrir fornri megineldstöð sem var virk fyrir 4 miljónum ára. Það er snarbratt og skriðurunnið, 844 m hátt úr vesturenda Skarðsheiðar, og nær út undir sjó gegnt Borgarnesi.  

Fjallið er mestmegnis úr blágrýti en ofarlega í skriðunum, gegnt Borgarnesi, skaga fram ljósleit klettanef úr granófýri sem heita Flyðrur. Engir aðrir klettar eru á þessum stað.  

Þjóðsagan segir frá bónda í Rauðanesi sem vegna fátæktar réri til fiskjar á páskadag, en slíkt var algjörlega bannað. Hann veiddi tvær flyðrur og einn þorsk sem varð honum til mikils happs og efnahagur hans vænkaðist. Árið efir vildi hann prófa aftur, þrátt fyrir enga nauðsyn. Fékk hann aftur tvær flyðrur og einn þorsk og var önnur flyðran stærri en hin. Skyndilega fýkur fiskurinn upp úr bátnum og varð að klettum í Hafnarfjalli. Frá firðinum eru þeir tilsýndar eins og tvær flyðrur og einn þorskur sem liggur austast. 

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs hefur stikað gönguleiðar upp að Steini á Hafnarfjalli. Ferðamenn sem leggja til uppgöngu á fjallið gera það alfarið á eigin ábyrgð.