Fara í efni

Frostastaðavatn

Stöðuvatn á Landmannaafrétti, við Landmannaleið. Að Frostastaðavatni liggja hraun, Dómadalshraun að vestan, Námshraun, líparíthraun með miklum hraunfossi, að sunnan og Frostastaðahraun að norðan. Austan að því liggur Frostastaðaháls. 

Gróðurlítið er við vatnið nema helst að norðan. Í því er lítill, mosagróinnn hólmi. Sögn hermir að bær hafi verið hér fyrrum og heitið Frostastaðir. Sagt er að fólkið þar hafi dáið af öfuguggaáti. Lagðist byggðin niður og veiði hvarf úr vatninu. Önnur sögn hermir að veiði hafi horfið úr Frostastaðavatni vegna þess að stúlka nokkur, sem þjónaði veiðimönnum, náði í loðsilung og gaf hann að eta einum mannanna, sem hún lagði hug á en sem ekki vildi þýðast hana.