Fara í efni

Fimmvörðuháls

Hvolsvöllur

Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, en hann er í mun verra ásigkomulagi en mikið notaður af göngufólki sem áningarstaður. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af vatnsföllum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla.

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 12. apríl 2010. Þá bárust fregnir af upphafi eldgoss með tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul og komu upplýsingarnar frá Lögreglunni á Hvolsvelli. Gosið var norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Gos þetta flokkast sem hraungos. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði hæsta hraunfoss í heimi sem rennur niður í gil í grennd við gossprunguna. Hraunfossinn var um 200 metra hár.