Fara í efni

Eyjabakkar

Landið austan Snæfells er í dag kallað Eyjabakkar þó hinir eiginlegu Eyjabakkar séu aðeins austan ár utan við Bergkvíslarnes, þetta svæði er einstök gróðurvin á hálendinu og er innan Vatnajökulsþjóðgarðs.  Náttúrufegurð er mikil, ekki síst við  sporð samnefnds jökuls, og þar er að finna eitt fjölbreyttasta gróðursvæði hálendisins. Á Eyjabakkasvæðinu sem er í 650-680 m hæð hafa fundist 133 tegundir háplantna. Innan til á svæðinu fella stórir hópar heiðagæsa flugfjaðrir og eru í sárum í júlí. Austurbakkarnir eru þurrir og þægilegir yfirferðar. Svæðið nýtur alþjóðlegrar friðlýsingar RAMSAR sáttmálans, sem er samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf. Handan Blöndukvíslar er skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs við Geldingafell og vestan megin við Snæfell er Snæfellsskáli.