Fara í efni

Dýrafjörður

Þingeyri

Dýrafjörður er fjörður sem bærinn Þingeyri stendur við og er staðsettur á milli Arnarfjarðar í suðri og Önundarfjarðar í norðri. Dýrafjörður er innan marka sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar. Í Dýrafirði eru sterk tengsl við Frakkland og er þar meðal annars að finna grafreit franskra sjómanna. Frakkland vildi eitt sinn stofna nýlendu í Dýrafirði því mikil frönsk útgerð var gerð út frá firðinum.

Dýrafjörður kemur einnig mikið fyrir í Gísla Sögu Súrssonar. Landslag í Dýrafirði er fallegt og setja fjöllin skýran svip á fjörðinn. Sandafell, ofan Þingeyrar, og Mýrarfell, handan fjarðar, standa ein og sér líkt og konungur og drottning fjarðarins. Vestfirsku alparnir eru sunnantil í firðinum og þar er að finna hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbak. Fallegasta en jafnframt hrikalegasta vegarstæði Vestfjarða er hinn ægifagri Svalvogavegur er liggur út með Dýrafirði, fyrir Svalvoga og Lokinhamra og inn með Arnarfirði. Einnig er hægt að fara hringleið með því að keyra aftur meðfram Kaldbak yfir Kvennaskarð. Mikil og sterk tengsl eru við Víkingatímann í Dýrafirði og það hefur meðal annars verið byggt upp víkingaþorp á Þingeyri.