Fara í efni

Djúpalónssandur á Snæfellsnesi

Hellissandur

Djúpalónssandur á Snæfellsnesi er skemmtileg, bogamynduð malarvík með ýmsum furðulegum klettamyndunum. Þarna er einstaklega kraftmikill staður þar sem hraunið mætir úthafinu þar sem hægt er að fá orku, innblástur og útrás en líka kyrrð og frið.  

Á árum áður var útgerð og verbúðarlíf á Djúpalónssandi og þótti mönnum þar reimt. Frá þeim tíma eru fjórir aflraunasteinar sem liggja undir kletti þegar komið er niður undir sandströndina. Þeir heita Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg, Amlóði 23 kg. Vinsælt er að reyna krafta sína á steinunum sem liggja undir Gatkletti.  

Bannað er að vaða og synda í sjónum við Djúpalónssand en mikið dýpi og sterkir straumar gera slíkt lífshættulegt.  

Frá Djúpalónssandi er um 1 km löng gönguleið yfir í Dritvík þar sem var mikil útgerð fyrrum. Dritvíkingar urðu að sækja allt vatn yfir á Djúpalónssand. Vatnsstígur þeirra lá yfir nesið Suðurbarða eða Víkurbarða.  

Bílastæði og salerni eru á staðnum.