Fara í efni

Eiðar

Egilsstaðir

Eiðar voru stórbýli til forna, höfðingjasetur og kirkjustaður. Eiða er raunar fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197. Samkvæmt samkomulagi Þorláks helga 1179 við eigendur kirkjustaða á Austurlandi var kirkjan á Eiðum bændakirkja og átti Eiðajörð að hálfu á móti staðarbónda. 

Þessi kirkjuskipan á Eiðum hélst allt til 1882 er Múlasýslur keyptu Eiðastól og þar var stofnaður búnaðarskóli sem tók við hlutverki Eiðabónda um forræði kirkjunnar. Árið 1883 var stofnaður þar bændaskóli en honum var svo breytt í héraðsskóla -Alþýðuskólann á Eiðum - árið 1918 sem starfaði sleitulaust en þó með breytingum í áranna rás allt til 1995 þegar hann var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allt frá lokun skólans hafa verið uppi ýmis áform um að finna þessum sögufræga stað nýtt og verðugt hlutverk. 

Kirkjumiðstöð Austurlands rekur vinsælar sumarbúðir fyrir börn við Eiðavatn og ferðaþjónusta er vaxandi á staðnum en þar er rekið gistihús og tjaldsvæði auk ýmissa afþreyingarmöguleika.