Fara í efni

Brúnavík

Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar eystri og er hluti gönguleiðakerfisins um Víknaslóðir. Gönguleiðin er alls um 12 km, þægileg og fögur dagleið. Gengið er frá bílastæði við Hafnarhólma og um Brúnavíkurskarð (360 m) austan Geitfells. Nokkuð bratt er niður að bæjarstæðinu og þarf að vaða eða stikla Víkurána ef farið er út á sandinn. Áin er oftast greiðfær niðri við sjó og vel þess virði að ganga niður í fjöru því hún er einstaklega litfögur. Til baka er gengið inn víkina, hvoru megin ár sem óskað er, inn að Brotagili en þar skammt frá er göngubrú yfir ána. Frá Brotagili er genginn vegslóði yfir Hofstrandarskarð (320 m). Gangan tekur um 5-6 klst. eftir vörðuðum leiðum og vegslóða.