Reykjafoss
Hveragerði
Lystigarðurinn í Hveragerði er í miðju bæjarins og markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar.
Í ánni Varmá rennur Reykjafoss. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins.
Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.