Skarðsströnd í Dölum
Skarðsströnd í Dölum er strandlengja sem liggur frá Klofning og inn að Saurbæ. Á Skarðsströnd eru margir merkisstaðir sem vert er að heimsækja og skoða
Upp frá ströndinni rísa snarbrattar hlíðar með hamrabrúnum og fuglabjörgum og verpa ernir þar. Fyrir utan ströndina eru hinar óteljandi eyjar, hólmar og sker Breiðafjarðar með góðum varplöndum og selalátrum víða.
Neðan við höfuðbólið Skarð er Skarðsstöð, forn höfn Skarðverja. Þar er mikið fuglalíf og menningarminjar. Skarðsstöð varð fyrsti
löggilti verslunarstaður Dalasýslu árið 1884 og lengi útgerðarhöfn Dalamanna. Nokkur útgerð hefur verið þar, einkum með grásleppu en hafaraðstaða er góð í Skarðsstöð frá náttúrunnar hendi. Ýmsar hafnarbætur hafa verið gerðar síðustu áratugi. Sjóvarnagarður var byggður, smábátahöfn og flotbryggja ásamt löndunarkrana og betri aðstöðu til löndunar.
Kolanáma, surtarbrandsnáma var á Skarðsströnd í landi Tinda. Enn sjást menjar hennar. Árið 1941 var stofnað hlutafélag til að vinna kol úr landi Tinda og undirbúningur að námuvinnslu hófst árið 1942. Hlé varð á starfseminni vegna stríðsins en hófst aftur árið 1953 og árið eftir var byggð bryggja fyrir framan námuopið þar sem 100 lesta skip gátu lagst að. Vinnslan stóð einungis í tvö ár og lagðist einkum af vegna þess að surtarbrandurinn reyndist ekki nægilega orkumikill.
Félagsheimilið Röðull liggur neðan vegar við Búðardalsá. Í Röðli eru oft sýningar tengdar mannlífi og menningu Skarðsstrendinga.
Ytri-Fagridalur er innsti bær á Skarðsströnd og landnámsjörð Steinólfs hins lága. Þar yfir trónir Hafratindur, fjall Dalanna.