Búðir á Snæfellsnesi
Snæfellsbær
Búðir á Snæfellsnesi bjóða upp á mikla náttúrufegurð, gullnar sandfjörur og úfið hraunið með miklum gróðri og fuglalífi. Falleg fjallasýn er frá Búðum og Snæfellsjökull skartar þar sínu fegursta. Búðir voru bújörð og kirkjustaður og á síðari árum vinsæll áningarstaður. Þar er starfrækt hótel.
Þegar í fornöld var skipalægi við Búðaósa og hét þá Hraunhafnarós en Hraunhöfn hét höfuðbólið sem stóð uppi undir fjallinu. Aðalverstöðin var vestar með ströndinni nokkru utar og heita þar Frambúðir og voru þar oft búsett á annað hundrað manns.
Brimakaupmenn versluðu þarna á 16. öld og sjást þar miklar rústir. Útgerð var stunduð frá Búðum allt til ársins 1933, þar hafa fundist minjar um akuryrkju.