Fara í efni

Tvísöngur

Seyðisfjörður

Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne og er hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar. Verkið er staðsett í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað og var formlega opnað almenningi 5. september 2012.

Verkið samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.

Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur.

Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni “Form og hljóð” í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans “Cromatico” sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011. Sjá nánar: www.lukaskuehne.com

Til að skoða og upplifa Tvísöng þurfa gestir að ganga upp malarveg, í 15-20 mín, sem er staðsettur beint á móti Brimberg fiskvinnslu.