Fara í efni

Stykkishólmur - gönguleið

Stykkishólmur

Stykkishólmsbær, í samvinnu við Skógræktarfélag Stykkishólms, Minjastofnun og íbúa Stykkishólms hafa ráðist í metnaðarfulla vinnu við að útbúa stefnumótun um framtíðar göngustígagerð í landi Stykkishólms. Fjölbreytta göngustíga er víða að finna, á fallegum stöðum víða í Stykkishólmi og með fallegt útsýni yfir Breiðafjörð, Drápuhlíðarfjall og fjallgarð Snæfellsness. 

Gönguleið við Grensás er mikið notuð af íbúum Stykkishólms en skógræktin tengist þar við útivistarsvæði golfklúbbs Stykkishólms og sjósundsfélagsins Flæði. Fjölbreyttar gönguleiðir er þar að finna og áningarstaðir margir en vinsælt er að hópar komi sér saman í skógræktinni og noti útbúnað sem þar er að finna. Gönguleið frá kirkju Stykkishólms niður í Maðkavík er vinsæl meðal ferðamanna en kirkjan setur mikinn svip á Stykkishólm. Maðkavík hefur verið ein af perlum ljósmyndara sem heimsækja Stykkishólm og eru gömlu bátarnir sem þar liggja oftar en ekki aðalfyrirsætur ljósmynda. Gönguleið upp Súgandisey er vinsæl en þar hafa verið lagðir göngustígar víða út um eyjuna og er vel viðhaldið. Gönguleiðir um Hjallatanga og Búðarnes eru vinsælar meðal íbúa Stykkishólms en þar er að finna fjölbreytt dýralíf í bland við tóftir og minjar frá tímum þegar lending skipa var þar. 

  • Staðsetning: Stykkishólmur
  • Upphafspunktur: Bílastæði við skógrækt
  • Erfiðleikastig: Auðveld leið/Létt leið. Hluti leiðar er á gangstéttum Stykkishólms
  • Lengd: 9.84 km.
  • Hækkun: 164 metrar (Súgandisey)
  • Merkingar: Stikur eru sumstaðar að finna en víða eru engar merkingar
  • Tímalengd: 2.20 klst.
  • Undirlag: Yfirborð úr smáum steinum, malbiki, blönduðu náttúrulegu efni og grasi
  • Hindranir á leið: Þrep, trappa eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
  • Þjónusta á svæðinu: Tjaldsvæði er við gönguleið, salerni er að finna við sundlaug og tjaldsvæði
  • Lýsing: Gönguleið er að hluta til með lýsingu í myrkri
  • Árstíð: Ferðaleið er opin 12 mánuði ársins en hafa ber í huga aðstæður yfir vetrarmánuði
  • GPS hnit upphafs- og endapunktar: N 65°03.8011 W 022°44.2534