Fara í efni

Páskahellir

Neskaupstaður

Í Fólkvangi Neskaupstaðar eru skemmtilegar gönguleiðir, þar á meðal í Páskahelli. Merkt gönguleið er frá bílaplani yst í Neskaupstað út með ströndinni ofan við sjávarbjörgin að stiga sem liggur niður í grýtta fjöruna við hellinn. Hægt er að ganga áfram og upp utan við hellinn eða fara sömu leið til baka. Páskahellir er skúti sem brimið hefur sorfið í bergið og í gafli hans má sjá sívalar holur eftir tré sem að öllum líkindum stóðu í myndarlegum skógi er varð undir hrauni fyrir um 12 milljónum ára. Þessar holur nýta bjargdúfur nú gjarnan sem hreiðurstæði. Við hellinn má einnig sjá fagurlega formað bólstraberg, volduga bergganga og sums staðar eru holufyllingar af bergkristal og fleiri steindum. Útfellingar mynda víða falleg mynstur í dökkum klettaveggjum og vatn drýpur fram af klettunum. Á veturna verða því oft til fagrar ísmyndanir og voldug grýlukerti i klettaveggjunum. Fögur útsýn er yfir Norðfjarðarflóann austur á Barðsneshorn og til Rauðubjarga með sínu eilífa sólskini. Sjór með smálífverum stendur uppi í pollum og bláliljubreiður skreyta klettana að sumri. Mikið fuglalíf er við ströndina svo sem fýll, mávar,  æðarfugl, svartfuglar og endur, t.d. er mjög algengt að sjá þar straumendur að sumri og músarrindill heldur sig löngum við hamrana nálægt stiganum og syngur gjarnan fyrir göngufólk. , mávar,  æðarfugl, svartfuglar og endur, t.d. er mjög algengt að sjá þar straumendur að sumri og músarrindill heldur sig löngum við hamrana nálægt stiganum og syngur gjarnan fyrir
göngufólk.   

Sagt er að á páskadagsmorgun megi sjá sólina dansa í hellinum og Ferðafélag Fjarðamanna hefur í mörg ár staðið fyrir
gönguferðum í hellinn á páskadagsmorgun til að freista þess að sjá sólardansinn. Sagan segir einnig að bóndinn á Bakka hafi þar forðum á páskadagsmorgun náð hami fríðrar selameyjar sem hafði ásamt fleirum úr liði Faraós gengið þar á land til gleðileika. Giftist bóndinn henni og áttu þau sjö börn. Náði hún þá haminum aftur og hvarf í sæ til annarra sjö barna. Seinna bætti sami bóndi kúakyn sitt með sænauti en hann náði að sprengja belg þess við Uxavog sem er á ströndinni innan við Páskahelli. Var talið að selkonan hafi þar sent fyrrum manni sínum björg í bú. Þjóðsaga segir að sænaut og sækýr þekkist á sægráum lit og blöðru sem er á milli hornanna eða á nösum þeirra. Verða þau strax gæf ef hún er sprengd og missa sævareðli sitt. Í fjósi þekkjast kýr af sænautakyni á því að þær snúa ávallt hausnum í áttina til sjávar.