Fara í efni

Kárahnjúkar

Egilsstaðir

Kárahjúkar eru móbergshnjúkar austan Jökulsár á Brú gegnt Sauðárdal.  Hærri hnjúkurinn er 835 metrar. Jökulsá fellur að Kárahnjúkum í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri sem er eitt hið dýpsta og hrikalegasta á landinu. Megingljúfrið er um 5 km. langt en allt er gilið frá Desjará að Tröllagili um 10 km. Við Kárahnjúka hefur verið reist mikil virkjun sem sér álverinu á Reyðarfirði fyrir orku. Kárahjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins.

Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir.

Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.