Fara í efni

Snæfellsjökull á Snæfellsnesi

Hellissandur

Snæfellsjökull á Snæfellsnesi með frægustu jöklum á Íslandi og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann er í röð formfegurstu jökla á Íslandi,1446 m hár og sést víða að. Margir njóta fegurðar hans í fallegu sólsetri.  

Snæfellsjökull er gamalt eldfjall sem hið efra er mjög reglulega löguð eldkeila. Gígskálin á toppi jökulsins er um 200 metra djúp, girt íshörmum. Á barmi skálarinnar rísa þrír tindar, eða þúfur, Jökulþúfur. Er miðþúfan hæsti tindur jökulsins.  

Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar. Löngum hefur dulúð því sveipað jökulinn og umhverfi hans.

Þeir sem hyggja á ferðir á Snæfellsjökul skulu kynna sér vel aðstæður og ástand jökulsins. Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háður leyfi þjóðgarðsvarðar. Óvönu fólki er bent á að ganga á Snæfellsjökul með leiðsögumanni en nokkur fyrirtæki bjóða uppá ferðir á jökulinn.

Svæðið um vestanvert Snæfellsnes er löngum kallað "undir jökli".