Fara í efni

Drápuhlíðarfjall

Stykkishólmur

Drápuhlíðarfjall er eflaust eitt af fegurstu fjöllum landsins. Það er um 527 metra hátt, 3,5 milljóna ára gamalt og leifar af fornri eldstöð. Rauð- og gulleitur svipur fjallsins mótast af ríólíti (líparíti, ljósgrýti), kísilríku (súru) gosbergi sem er ríkjandi bergtegund þess. Litinn skapar hið háa hlutfall kísils SiO2) og þar með ljósra steinda í berginu. Hlutar fjallsins eru basískt og ísúrt innskotsberg. 

Áður trúðu menn að gull fyndist í fjallinu. Ekkert slíkt hefur þó fundist í vinnanlegu magni þrátt fyrir talsverða leit. Hins vegar er mikið um glópagull í fjallinu, en svo nefnist stundum pýrít (járnkís, FeS2), málmsteind sem glóir eins og gull. 

Eitt af sérkennum Drápuhlíðarfjalls er stóra berghlaupið, sem féll úr norðvesturhluta fjallsins líklega rétt eftir lok síðustu ísaldar. Það myndar u.þ.b. eins kílómetra langa skriðu sem er frá nokkrum tugum metra upp í allt að hundrað metra að þykkt. Efni úr skriðunni var vinsælt til arinsmíða eftir miðbik síðustu aldar og prýðir Drápuhlíðargrjótið því heimili víða um land. Efnistaka er hins vegar með öllu óheimil í dag. 

Drápuhlíðin kemur fyrir í hinni merku fornsögu Eyrbyggja, sem skrifuð var líklega eftir árið 1250. Í Drápuhlíð bjó Vigfús Björnsson sem var gildur bóndi en sagður ódældarmaður mikill. Vigfús bauð þræl sínum, Svarti hinum sterka, frelsi ef hann færi að Helgafelli og dræpi Snorra goða. Morðtilraunin mistókst og galt Vigfús fyrir með dauða sínum. 

Fram undir miðja síðustu öld var búið á þremur bæjum norðvestan við rætur Drápuhlíðarfjalls, þ.e. Efrihlíð, Innri Drápuhlíð og Ytri Drápuhlíð. Fjölmargar tóftir útihúsa og bæjarhúsa eru enn sýnilegar frá þeim tíma. 

  • Staðsetning: Snæfellsnes
  • Vegnúmer við upphafspunkt: Nr. 54 (Snæfellsnesvegur)
  • Erfiðleikastig: Krefjandi leið
  • Lengd: 5.6 km.
  • Hækkun: 527 m.
  • Merkingar: Merkt leið
  • Tímalengd: 1.5 klst. að ganga
  • Undirlag: Smáir steinar, gras, stórt grjót og blandað yfirborð
  • Hindranir á leið: Þrep, trappa eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
  • Þjónusta á svæðinu: Engin þjónusta á svæðinu
  • Lýsing: Gönguleið er án lýsingar í myrkri
  • Árstíð: Ferðaleið er opin 12 mánuði ársins en hafa ber í huga aðstæður yfir vetrarmánuði
  • GPS hnit upphafs- og endapunktar: N 64°59.7110 W 022°44.4627