Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær - Fuglaskoðun
Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær
Vatnsleysuströnd nær frá Vogum að Hvassahrauni (Kúagerði) í austri og er um 15 km löng. Þetta er gróðurríkt svæði, ef tekið er mið af öllu Reykjanesinu, með nokkrar tjarnir og ferskvatn sem rennur undan hrauninu niður í fjöru. Aðalvegurinn er malbikaður en aðgengi að strönd er á flestum stöðum um einkalönd. Kríuvarp er við Stóru-Vatnsleysu, æðarfuglar verpa á stangli um svæðið, máfar verpa á nokkrum stöðum og verpandi vaðfuglar eru algengir. Sjaldgæfari varpfuglar eru t.d. lómur og óðinshani. Að hausti má finna umferðarfugla svo sem rauðbrystinga, tildrur og sanderlur í ætisleit og hvíld í fjörum strandarinnar. Stakksfjörður nær frá Vatnsleysuströnd að Stakki norðan Helguvíkur.
Kálfatjarnarkirkja
Ef komið er úr austri af Reykjanesbraut inn á Vatnsleysuströndina má sjá Stóru-Vatnsleysu. Þar í nágrenninu má finna fiskeldi innan girðingar og út frá því rennur úrgangur niður í fjöru. Í úrganginn sækja máfar, endur og stöku vaðfuglar. Að hausti er sjórinn ríkur af dílaskarfi, æðarfuglum, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi. Úr Flekkuvík er fallegt útsýni og þar eru góðar hraunfjörur, en þangað er um 500 metra gangur frá vegi. Kálfatjarnarkirkja er í næsta nágrenni og þar er hægt að leggja bílnum og ganga niður að tjörn. Á tjörninni eru oft endur og vaðfuglar í köntum. Í landfyllingunni eru spörfuglar, svo sem steindeplar, þúfutittlingar og músarrindlar að vetri. Fjaran er rík af vaðfuglum, bæði í seti og grýttu þanginu. Tjarnir sem þessar eru góður staður til að sjá fáséðar endur svo sem skeiðendur, grafendur eða erlendar flækingsendur þar sem lítið er um yfirborðsferskvatn á þessum slóðum. Nokkrar tjarnir má sjá við veginn á Vatnsleysuströnd sem vert er að skoða á leið um svæðið. Fitjar er að finna á nokkrum stöðum á svæðinu. Lífríkar fitjar með margæsum, grágæsum og jafnvel heiðagæsum á fartíma sjást við fjöruna milli Álfasunds og Brunnastaðasunds, og verpandi lóm ásamt nokkrum andategundum má sjá á tjörninni austan Brunnastaða. Handan varnargarðs er hægt að finna litmerktar sanderlur á fartíma og töluvert hefur verið merkt af tjaldi á Vatnsleysuströndinni.
Vogar
Inni í Vogum er stór andapollur sem dregur að sér nokkrar tegundir anda, óðinshana og vaðfugla að sumri. Kringum tjörnina er vegur og göngustígur sem bíður upp á góð færi til ljósmyndunar. Handan tjarnarinnar er varnargarður og stór fjara. Í höfninni sjást teistur, hávellur og straumendur. Að sumri má sjá spörfugla grípa flugur á flugi í kringum grjótgarðinn. Þegar komið er inn í Voga, tekin fyrsta beygja til vinstri og keyrt í gegnum bæinn, endar maður á malarvegi. Malarvegurinn liggur að hliði Stofnfisks og hægt að komast þaðan niður að Vogaleirunni undir hömrum Vogastapa. Þar eru stórir hópar lóuþræla, heiðlóa, sandlóa, stelka, tjalda og annarra vaðfugla. Við útrennsli Stofnfisks er mikið um máfa og endur.
Þorbjörn og Sólbrekkuskógur
Litskrúðugur mosi og lyng er ríkjandi gróður á Reykjanesinu en lítið er um skóglendi. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur staðið fyrir smávægilegum gróðursetningum innfluttra plöntutegunda. Þar má helst nefna Selskóg við rætur Þorbjarnar, Sólbrekkuskóg við Seltjörn og Háabjalla við Snorrastaðatjarnir. Helstu tegundir sem finnast í þessum lundum eru skógarþrestir, músarrindlar, þúfutittlingar, auðnutittlingar og glókollar. Í Sólbrekkuskógi er oft að finna smyril og rjúpur eru algengar við jaðrana. Erlendir flækingsfuglar frá Evrópu og Ameríku sem vanir eru skóglendi sækja í þetta skjól í von um fæði á fartíma. Gott er að gægjast á tjarnirnar og athuga með endur eða aðra vatnafugla.
Reykjanesbær
Njarðvíkurfitjar á flóði eru með betri fuglastöðum á Reykjanesi. Þar er best að ganga um allar tjarnirnar. Vaðfuglar og spörfuglar leynast í fitjunum og köntum tjarnanna. Stokkendur, urtendur, rauðhöfðar, máfar og vaðfuglar sem bíða eftir lækkandi sjávarstöðu sjást á tjörnunum. Ljóshöfði sem er amerískur flækingur sést reglulega með rauðhöfðum á tjörninni. Hafnir Njarðvíkur, Keflavíkur og Helguvíkur halda stóra hópa æðarfugla og sjófugla. Góðar líkur eru á að sjá æðarkónga, korpendur og kolendur í hópum æðarfugla. Skarfar, teistur og selir eru oft í góðu færi í höfnunum. Á klettum við vitann í Helguvík að sumri er hægt að sjá lunda og aðra sjófugla úti á hafi og verpandi ritur og fýla í klettunum.