Fara í efni

Lagarfljót og Lögurinn

Egilsstaðir

Lagarfljót er stærsta vatnsfall Austurlands og eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Eyjabakkajökli til Héraðsflóa, eða um 140 km leið. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið, gjarnan kallað Lögurinn, nær frá Fljótsbotninum í Fljótsdal og út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Það er um 53 ferkílómetrar að stærð og er meðaldýpi um 51 m en mesta dýpi 112 m. Sagt er að þar séu heimkynni Lagarfljótsormsins.

Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn og er fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum frá 1345. Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu. Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum.

Áningarstaðir eru víða kringum fljótið og þar er kjörið að staldra við og líta eftir orminum.