Fara í efni

Garður - Kalmanstjörn - Fuglaskoðun

Garður

Á leið til Garðs frá Keflavík er gott að hafa augun opin fyrir snjótittlingum, rjúpum, smyrlum og ungum fálkum að vetri. Lítið er um fálkavörp á Reykjanesinu en ungir fálkar eru algengir í ætisleit að vetri. Sýkin í Garði eru með betri flækingastöðum á Íslandi. Margir sjaldgæfir flækingar hafa sést á þessum tjörnum. Ef vel er að gáð má finna grafendur, hávellur, skeiðendur, gargendur, gráhegra, ljóshöfða og fleiri sjaldgæfa íslenska og erlenda fugla. Grjótgarðurinn ofan tjarnanna er fæðukista fyrir spörfugla. Sportittlingar sjást reglulega við grjótgarðinn milli Garðs og Garðskagavita. Úti á sjó sjást flestir algengir sjófuglar. Sjaldséðari sjófuglar sjást af til svo sem hópar af skrofum að hausti, og með smá heppni má finna stormsvölur, ískjóa og gráskrofur.  Því er mikilvægt að horfa til beggja átta þegar gengið er frá Garði að Garðskagavita.

Garðskagaviti

Á þessum nyrsta odda Reykjanesskagans er glæsileg aðstaða til sjófugla- og hvalaskoðunar. Mikil umferð sjófugla er nálægt landi að vori og hausti. Umferðarfuglar á leið sinni til og frá varpstöðvum stoppa við á grasi og í fjörum oddans. Upprekið þang safnar hita og býr til fullkomnar aðstæður fyrir þangflugulirfur sem nýtast vaðfuglum og máfum til átu. Himbrimar, lómar og straumendur sjást úti á sjó nálægt landi í leit að fæðu. Aðgengi er gott fyrir bæði fólksbíla og rútur. Salerni er á staðnum og stigar eru niður í fjöru þó oft sé betra að standa ofan varnargarðs og kíkja ofan í fjörurnar og út á sjó. Vegurinn milli Garðskagavita og Sandgerðis er fullur af góðum fuglaskoðunarstöðum. Ásgarður er bær rétt sunnan Garðskagavita. Þar eru oft stórir hópar heiðlóa og inni á milli má stundum finna gulllóu, glitlóu eða jafnvel fitjatítu. Einkavegir eru á flestum stöðum niður að fjöru en gott er að ganga að tjörnum og niður að fjöru við golfvöll Hafurbjarnarstaða og við Nátthaga sem staðsettur er við stóra tjörn sem heldur fjölda anda, máfa og vaðfugla. Margar tjarnir og góðar fjörur eru á þessari leið milli Garðskagavita og Sandgerðis svo mælt er með því að ganga fjöruna.

Sandgerði

Sandgerðistjarnirnar við enda Garðvegar eru varpstaðir anda, spörfugla og vaðfugla að sumri. Þær eru góður baðstaður máfa og andfugla allt árið um kring. Stokkendur, skúfendur, urtendur og grágæsir sjást allt árið þegar vök er opin. Fuglaskoðunarhús er við tjörnina en ekki er mælt með því að nýta það þar sem það er óheppilega staðsett til fuglaskoðunar. Stuttur malarvegur er við minni tjörnina sem liggur niður að sjó bak við gamla fiskvinnslu. Þar er gott að leggja bíl og skoða vaðfugla og sjófugla. Þá er hægt að keyra að Sandgerðisleirunni sem er sunnar í bænum. Ræsispípur úr fiskverkunarhúsum liggja niður í fjöruna og laða að sér fjölmargar máfategundir, fýla, hávellur, stokkendur, skarfa og fjölda vaðfugla í góðu ljósmyndunarfæri. Algengir máfar á þessu svæði eru svartbakar, sílamáfar nema að vetri, silfurmáfar, hvítmáfar, bjartmáfar að vetri, hettumáfar og stöku stormmáfar. Sumar tegundir hafa fleiri en eitt litarafbrigði og dæmi um það eru fýlar og bjartmáfar. Gráleitir fýlar með dökkar fjaðrir eru kallaðir kolapiltar meðan bjartmáfar með svart í vængendum eru kallaðir kumlien bjartmáfar. Kumlien er vestræn undirtegund bjartmáfsins og eru hún frekar algeng á Íslandi miðað við annars staðar í Evrópu. Nokkrar máfategundir flækjast til Íslands ár hvert en dæmi um þær eru dvergmáfar, amerískir silfurmáfar, hringmáfar, ísmáfar, þernumáfar og rósamáfar. Þúsundir sanderla stoppa við þessar fjörur á leið til og frá varpstöðum að vori og hausti. Margar sanderlur hafa verið litmerktar á þessum slóðum svo fuglaskoðarar eru beðnir um að lesa á merkin og senda upplýsingar til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fleiri vaðfuglar eru tildrur, sendlingar, lóuþrælar, heiðlóur, tjaldar, sandlóur, stelkar, spóar, fjöruspóar, jaðrakanar og stöku lappajaðrakanar. Fjöruspóar eru mjög sjaldgæfir varpfuglar á Íslandi. Þekkt eru örfá vörp en ekkert þeirra er á Reykjanesinu. Fjöruspóar eru þrátt fyrir það algengir vetrarfuglar í kringum Sandgerði og maður getur nánast gengið að þeim vísum í grýtta þanginu neðan kjúklingabúsins við Sandgerðisleiru.

Þekkingarsetur Suðurnesja er staðsett við Garðveg 1 og þar er hægt að finna salerni og aðstöðu til að snæða nesti fyrir lítinn pening. Þar eru þrjár sýningar, auk lifandi sjávardýra, sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af að skoða.

Norðurkot

Þegar haldið er áfram suður eftir Stafnesvegi frá Sandgerði í átt að Höfnum sjást nokkrar stórar tjarnir vestan vegar sem vert er að skoða. Við bæinn Norðurkot er mikið fuglalíf. Þar er stærsta æðarvarp Reykjanesskagans enda er það vaktað allan sólarhringinn af landeigendum gegn líklegum afræningjum. Bannað er að ganga um svæðið að sumri nema með leyfi eiganda. Fleiri fuglar nýta þessa vernd og góðu tjarnir. Þar má sjá stórt kríuvarp í góðu sílaári. Auk æðarfugla halda andfuglar til við tjarnirnar og verpa í köntum þeirra og á flóðinu sækja vaðfuglar í kantana. Sunnan Norðurkots er tjörn eða vík nefnd Fuglavík. Hún ber nafn með rentu þar sem mikið er um andfugla, vaðfugla og máfa.

Hvalsnes

Bílastæði eru næg við Hvalsneskirkju. Þaðan er hægt að ganga niður í litla vík sem oft er rík af öndum og vaðfuglum í fjöru. Með urtöndum er oft að finna ameríska rákönd. Sunnan við Hvalsnes er annað stærra nes kallað Stafnes þar sem finna má fallegan vita. Þar er hægt að horfa út á haf á fartíma eða að sumri að fylgjast með umferðarfuglum.

Ósar og Hafnir

Ósar og Ósabotnar er lífríkt svæði með setbotni sem heldur mikinn fjölda fugla. Mjög stórir hópar anda, vaðfugla og brúsa er að finna á svæðinu. Gott er að ganga frá  Ósabotni að Höfnum og skoða út á hafið. Fálkar og smyrlar í leit að bráð eru algeng sjón. Að vetri sjást vel himbrimar, lómar, skarfar og fiskiendur í ætisleit út af bryggjunni í Höfnum og auðvelt er að komast í gott færi við straumendur. Fjöruspóar spígspora um í þanginu að vetri. Fínt set ríkt af botndýralífi er aðgengilegt fyrir vaðfugla á fjörunni og greinileg skipting þangbelta sést vel í hraungrýttri þangfjörunni. Ungir hafernir hafa sést í hólmum í leit að æti. Skúmar og kjóar verpa í snöggu grasinu að sumri.

Kalmanstjörn og Hafnaberg

Bílastæði er að finna sunnan við fiskeldið á vegi 425. Þar er hægt að ganga meðfram girðingu niður að Kalmanstjörn. Þar safnast straumendur saman í hóp að vetri og þar hafa sést flækingar á borð við rákönd, brandönd, gráhegra, æðarkóng og sefgoða. Þegar ekið er lengra til suðurs er bílastæði með fuglakorti. Þaðan er um 20 mínútna ganga niður að Hafnabergi og gott er að hafa augun opin fyrir verpandi kjóum á leiðinni. Hafnaberg er sjófuglabjarg með verpandi fýlum, ritum, langvíum, stuttnefjum, álkum og stöku lunda (2006). Varp byrjar í lok maí og álega er um 30 dagar og ungar eru um 20 daga í hreiðri áður en þeir stökkva til sjávar í fylgd foreldra. Fín fugla- og hvalaskoðun er frá syllunum. Syllur eru ótraustar og aðgát skal höfð nærri bjargsbrún.